Þriðjudaginn 18. febrúar klukkan 15:00, verður málstofa haldin í fundarsal Seðlabankans á fyrstu hæð, Sölvhóli. Frummælandi er Ásgeir Daníelsson, forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar hagfræðisviðs.
Útskýrð verða grundvallaratriðin í gjaldmiðlavörnum og hvernig finna megi hagkvæm kaup á slíkum vörnum fyrir erlendar fjárfestingar. Sýnt er að ef gjaldmiðlavörnin er ekki ókeypis, eins og slík viðskipti eru sjaldnast, er aldrei hagkvæmt fyrir áhættufælinn fjárfesti að verja allar erlendar eignir sínar gegn gengisóvissu. Þá er sýnt að fjárfestir sem horfir á mögulega arðsemi af kaupum á gjaldeyrisvörnum veðjar á framtíðarþróun gengis krónunnar á nákvæmlega sama hátt og erlendur fjárfestir sem stundar vaxtamunaviðskipti. Ýmislegt bendir til að kaup lífeyrissjóðanna hafi, að einhverju marki, verið hugsuð sem veðmál varðandi þróun á gengi krónunnar. Sýnt verður að ef þróun gengis krónunnar er best lýst með meðaltalshneigðu (e. mean reversive) slembiferli er skynsamlegt að stunda spákaupmennsku með gjaldeyrisvarnir og hlutfall erlendra eigna í eignasafni. Af sömu forsendu um þróun gengis krónunnar leiðir að hagkvæm kaup langtímafjárfestis á gjaldmiðlavörnum eru minni en hagkvæm kaup hans á gjaldmiðlavörnum til skamms tíma. Ef hins vegar gengið fylgir hreinu ráfferli (e. random walk) eru ekki skynsamlegar forsendur fyrir spákaupmennsku með gjaldeyrisvarnir eða hlutfall erlendra eigna í eignasafni en hins vegar jafn hagkvæmt að kaupa skammtíma gjaldmiðlavarnir til að verja erlendar eignir gegn gengisbreytingum til skamms og langs tíma. Einnig er sýnt hvernig fylgni gengisbreytinga og verðbólgu á Íslandi dregur úr þörf íslenskra fjárfesta fyrir að verja erlendar fjárfestingar fyrir gengisóvissu.